ylströndin.

411-5330
ylstrond@reykjavik.is

Miðjarðarhafsstemming í Norður Atlantshafi

Ylströndin í Nauthólsvík, sem tekin var í notkun árið 2000, hefur sannarlega fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu sem laðar að jafnt innlenda sem erlenda gesti. Voldugir sjóvarnargarðar loka af fallegt lón þar sem kaldur sjór og heitt vatn renna saman í eitt. Inn fyrir garðana hefur verið dælt gullnum skeljasandi og minna þessar aðstæður meira á strendurnar við sægrænt Miðjarðarhafið en vík í nyrstu höfuðborg heims við Norður-Atlantshafið. Markmiðið með þessum framkvæmdum var að gera Nauthólsvík að fjölbreyttu útivistarsvæði þar sem lögð er áhersla á útiveru, sólböð, sjóböð og siglingar líkt og tíðkaðist hér fyrr á árum.

Þjónusta allt árið um kring

Í Nauthólsvík er að finna þjónustumiðstöð með búnings- og sturtuaðstöðu fyrir baðgesti auk veitingasölu og grillaðstöðu. Fyrir framan þjónustumiðstöðina er löng setlaug sem er um 38°C heit. Í flæðarmáli strandarinnar er uppstreymispottur til hitunar á lóninu sem jafnframt er íverustaður. Einnig er að finna eimbað á Ylströndinn.

Góð aðsókn hefur verið að Ylströndinni og koma að meðaltali hátt í 530.000 gestir á hverju ári á ströndina. Það er því óhætt að segja að ströndin hafi fest sig í sessi sem spennandi íverustað, hvort sem er fyrir fólk sem vill flatmaga á gylltri strönd á sólskinsdögum eða eldhugana sem víla ekki fyrir sér að baða sig um hávetur.