Nauthólsvík.
Saga Nauthóls
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma. Hann var hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og hann var brenndur. Tóftir hans sjást enn norðan við bílastæðin.
Í síðari heimsstyrjöldinni voru miklar herbúðir og umsvif á vegum setuliðsins umhverfis flugvöllinn. Í Nauthólsvíkinni var aðstaða fyrir sjóflugvélar, sem voru mikilvægar í orrustunni um Atlantshafið. Þar var m.a. norsk flugsveit. Minnisvarði um veru hennar hér stendur vestan þjónustuhúss Ylstrandar.
Hreinsun strandar opnar möguleika
Á árunum eftir styrjöldina komu upp hugmyndir um nýtingu Nauthólsvíkur sem sjóbaðsstaðar og aðstaðan var bætt en síðar voru sjóböð bönnuð vegna mengunar. Á áttunda áratugnum var síðan heiti lækurinn, sem gekk undir ýmsum nöfnum, vinsæll þar til honum var lokað árið 1985. Þegar hreinsun strandlengju borgarinnar fór á skrið, kviknuðu hugmyndir um að endurvekja Nauthólsvík sem sjóbaðstað og framkvæmdir hófust skömmu síðar. Ströndin var vígð sumarið 2000 og ári síðar var opnuð þjónustumiðstöð með búningsklefum, baðaðstöðu og veitingasölu.
Affalsvatn verður að baðaðstöðu
Lónið og pottarnir eru hitaðir upp með affallsvatni frá hitaveitugeymunum í Öskjuhlíð. Þar er vatn sem hefur verið nýtt til upphitunar húsa borgarbúa. Við ákjósanlegustu aðstæður er hitastig sjávarlónsins innan grjótgarðanna 15-19°C og pottarnir eru 30-39°C heitir.
Þjónustuhúsið er tilvalin aðstaða fyrir hlaupara, sem geta valið úr miklum fjölda hlaupaleiða, s.s. skógarstígum Öskjuhlíðar og meðfram ströndinni til vesturs og inn Fossvogsdalinn í átt að Elliðavatni.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur starfrækir siglingaklúbbin Siglunes og Ylströndina í Nauthólsvík.
Aðgengi fyrir hreyfihamlaða
Fjögur merkt stæði eru fyrir fatlaða við Ylströndina. Hjólastólaaðgengi er frá bílastæðum og inn í þjónustuhúsið á Ylströndinni. Salerni fyrir fatlaða eru í báðum búningsklefum og aðgengi inn í sturtur.
Athugið að ekki er rampur til þess að hjólastólar komist niður á strönd og það er hvorki hjólastólaaðengi inn í gufu né sérstakur búnaður til að komast ofan í pott.