Sjósund.

Sjósund er spennandi

Sjósund nýtur vaxandi vínsælda og þykir það einstaklega gott fyrir áhugafólk um sjósund að nýta sér aðstöðu Ylstrandar allt árið. Starfsmenn Ylstrandar reyna eftir fremsta megni að gefa sjósundfólki góð ráð en þó má sérstaklega taka fram að reyndir sjósundkappar eru bestir í að gefa góð ráð.

Góðar upplýsingar um ofkælingu eru á vef Landlæknisembættisins.

Sjósund er spennandi og ögrandi íþrótt með mikilli áskorun. Margir þeir sem prufa og stunda sjósund eru að sækja í áskorun sem þessa.

Starfsfólk Ylstrandar getur ekki með nokkru móti tryggt öryggi gesta í sjónum.

Hafið í huga:

  • Í Nauthólsvík og á Fossvogi er bátaumferð sem er hættuleg sundfólki.
  • Sundfólk er vinsamlega beðið um að synda nálægt landi og ekki synda nálægt bátaumferð eins og við bryggju og flotbryggjur Sigluness.
  • Byrjendum í sjósundi og sjóbaði er ráðlagt að vera stutta stund í einu í sjónum á meðan líkaminn er að aðlagast kuldanum.
  • Sjávarhittinn í Nauthólsvík er mældur í efsta lagi sjávarins á 15-30 cm dýpi.
  • Í júlí og ágúst er sjórinn heitastur og getur sjávarihti farið í +15°C.
  • Í desember, janúar og febrúar er sjórinn kaldastur og getur sjávarhiti farið í -2°C. Í mars byrjar sjórinn að hlýna aftur.

Ráðleggingar um sjósund

Fyrir sund

  • Syntu ekki ein(n).
  • Kynntu þér aðstæður, t.d. Strandlengjuna, sjólag, sjávarhita, sjávarföll, vindstyrk og vindátt áður en þú ferð í sjóinn.
  • Vertu búin(n) að borða áður en þú ferð í sjóinn.
  • Notaðu sundhettu/húfu í áberandi lit.
  • Farðu rólega ofan í sjóinn og gefðu líkamanum tíma til að venjast kuldanum.
  • Ekki byrja að synda fyrr en þú andar eðlilega.
  • Syntu helst í dagsbirtu svo þú sért sýnilegir. Ef um kvöldsund er að
    ræða er mikilvægt að vera nálægt landi því erfitt er að greina
    sundmenn sem komnir eru frá landi.

Á sundi

  • Syntu ekki ein(n).
  • Hugsaðu um eigið öryggi.
  • Vertu nálægt landi. Syntu meðfram ströndinni af
    öryggisástæðum. Straumar geta verið viðsjárverðir. 
  • Andaðu rólega.
  • Fylgist hvert með öðru. Talist reglulega við til að
    fylgjast með líðan og meðvitund.
  • Aldrei synda undir ísinn.
  • Óvanir ættu að vera skamma stund í sjónum í fyrstu skipti og vera
    aðeins með vönu sjósundfólki.
  • Þú deilir sjónum með öllum hinum vatnasportsiðkendunum.
  • Hætta á ofkælingu og örmögnun er mikil.  Ekki taka áhættu – þú þarft að komast til baka á eigin spýtur.
  • Hlustaðu á skilaboð líkamans. Við ofkælingu leitið til starfsmanna
    Ylstrandar eða hringið í Neyðarlínu 112.

Eftir sund

  • Þurrkaðu þér vel áður en þú klæðir þig í fötin.
  • Drekktu vatn.
  • Borðaðu eitthvað næringarríkt.
  • Klæddu þig í hlý föt áður en þú ferð heim.
  • Köld húð er auðsærð og þess vegna er rétt að gæta varúðar þegar
    komið er úr sjónum.